Nasdaq Iceland (Kauphöllin) afgreiddi samtals 89 eftirlitsmál á síðasta ári og var fimmtán málum vísað til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nasdaq Iceland.

Einnig kemur fram að tveimur málum hafi verið vísað til Viðurlaganefndar Kauphallarinnar til frekari meðferðar. Öðru málinu var lokið án aðgerða en hitt málið verður tekið fyrir núna í ársbyrjun.

Af málunum 89 afgreiddi Kauphöllin 66 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf félaga á markaði, en 23 mál lutu að viðskiptum með verðbréf.

Í upplýsingaskyldueftirliti voru 24 mál afgreidd með athugasemd og átta málum lokið með óopinberri áminningu. Ekkert mál var afgreitt með opinberri áminningu. Tveimur málum var vísað til FME til frekari skoðunar, en alls var 32 málum lokið án aðgerða.

Af þeim málum sem lutu að viðskiptum með verðbréf var eitt mál afgreitt með athugasemd. Engin mál voru afgreidd með áminningu. Þrettán málum var vísað til FME til frekari skoðunar. Níu málum var lokið án aðgerða.