John D. China, sem situr í framkvæmdastjórn hins bandaríska Silicon Valley Bank, hélt í síðustu viku fyrirlestur á ný­ sköpunarráðstefnu við Háskólann í Reykjavík sem nefnist „How Innovation and Talent attract Capital“. Meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru hátt settir menn frá stórfyrirtækjum á borð við Uber og Yahoo, en t.d. var rætt hvernig sprotafyrirtæki geta farið frá því að vera hugmynd og yfir í að vera alþjóðlegt stórfyrirtæki. China segir að ýmislegt þurfi að skoða þegar reynt er að spá fyrir um komandi velgengni fyrirtækis.

„Þegar fyrirtæki fer á markað vilja allir vera bestu vinir þeirra, við viljum vera á undan þeim í ferlinu,“ segir China. Hann hefur ákveðnar hugmyndir um það hvað íslenskir frumkvöðlar þurfa að gera til að ná árangri.

Hann segir tvenns konar byltingu vera í gangi í nýsköpun. Annars vegar sé verið að gerbreyta gömlum mörkuðum, eins og t.d. Uber er að gera við leigubílabransann, og hins vegar séu fyrirtæki að ryðja sér rúms á glænýjum mörkuðum.

„Það sem ég myndi segja Íslendingum er: Farið þið og finnið peningana fyrst, ekki bíða eftir því að fólk komi hingað. Ég veit það kostar peninga, en kaupið flugmiða og farið í Kísildalinn, þetta breytir öllu. Íslendingar geta ekki beðið eftir því að peningarnir komi hingað, þeir verða að fara að sækja þá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .