Einhver umfangsmestu viðskipti Íslandssögunnar áttu sér stað um helgina þegar gengið var frá yfirtöku Baugs og innlendra og erlendra viðskiptafélaga á bresku verslunarkeðjunni Big Food Group. Þó að viðskiptin hafi verið lengi í undirbúningi þá var það ekki fyrr en á lokasprettinum sem þau gengu saman. Til að ræða þetta kemur Hafliði Helgason blaðamaður á Fréttablaðinu til okkar en hann hefur fylgst náið með málinu undanfarna daga.

Að því loknu ætla ég að heyra í Pétri Óskarssyni framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Katla DMI en þeir hafa sérhæft sig í samskiptum við þýska ferðamenn.

Forráðamenn Samtaka iðnaðarins hafa ítrekað bent á það siðleysi sem felst í svokölluðu kennitöluhoppi. Það á við þegar fyrirtæki verður gjaldþrota en nýtt fyrirtæki með nýrri kennitölu er stofnað á rústum þess fyrrnefnda. Starfsemin er hin sama, svo og eigendur, starfsmenn, húsnæði og jafnvel tæki og tól. Nú síðast hafa þeir brýnt fyrir opinberum kaupendum að efla rannsóknir á viðskiptasögu viðskiptavina sinna. Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri samtakanna verður gestur minn í lok þáttarins.