N1 hefur keypt Kynnisferðir en fyrir átti félagið rúman þriðjung í félaginu. Hópbílar í Hafnarfirði og Guðmundur Arnaldsson áttu félagið áður á móti N1.

Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, var ljóst um áramótin að félagið myndi ekki hafa reiðufé til rekstrar fram á vor og þegar ljóst var að fyrirgreiðslu í banka yrði hafnað var eina ráðið að leita til hluthafa.

,,Niðurstaða okkar var að við keyptum þá aukningu sem þurfti að koma til svo að félagið yrði rekstrarhæft. Aðrir treystu sér ekki til að koma með fé á þessum tímapunkti,” sagði Hermann.

Starfsemi Kynnisferða verður feld beint undir N1. ,,Þetta er varnarleikur en þó einnig hluti af okkar strategíu. Við erum að reka veitingaskála á þjóðveginum um land allt. Okkar hugmyndafræði er að vera virkir þátttakendur í þjónustu við ferðamenn og Kynnisferðir eru jú að sinna þeim allt árið um kringt. Við höfum trú á félaginu. Þarna eru góðir og öflugir stjórnendur og reksturinn hefur gengið vel.”

Hjá Kynnisferðum starfa 70 manns.