Leyst hefur verið úr fyrirvörum vegna kaupa Avia Solutions Group (ASG) á Bláfugli ehf af BB Holding ehf og hafa kaupin nú gengið í gegn og kaupverð verið greitt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu, en samið var um kaup litháenska félagsins á Bláfugli undir lok janúar mánaðar líkt og Viðskiptablaðið sagði þá frá . Kaupverðið er sagt vera trúnaðarmál en eigendur BB Holding eru þeir Steinn Logi Björnsson, Hannes Hilmarsson, Geir Valur Ágústsson og Stefán Eyjólfsson.

Steinn Logi Björnsson, einn seljanda og núverandi forstjóri, mun starfa áfram sem forstjóri Bláfugls til 30. apríl og eftir það verður hann ráðgjafi félagsins.  Sigurður Örn Ágústsson verður stjórnarformaður nýrrar stjórnar.

„Þegar kaupin voru undirrituð var augljóslega annað viðskiptaumhverfi en við búum við í dag. ASG hefur metnað til að stækka og styrkja Bláfugl á komandi mánuðum, en auðvitað verður að taka mið af þeirri sérstöku stöðu sem nú er uppi. Með þessari fjárfestingu er ASG að styrkja sig á fraktflugsmarkaði, félagið á þegar Chapman Freeborn og Magma sem starfa á þessum markaði. Við höfum mikla trú á þeim framtíðarmöguleikum sem fyrirtækinu standa opnir," segir fyrrnefndur Sigurður Örn í fréttatilkynningunni.

Avia Solutions Group er stærsta fyrirtæki Mið-og Austur Evrópu í flugtengdri þjónustu. ASG er með um 90 skrifstofur og starfsstöðvar í um 50 löndum. Hjá félaginu og dótturfyrirtækjum starfa um 5.000 manns, tekjur 2019 námu um 1,5 milljörðum evra, en það starfar á flestum sviðum flugtendrar starfsemi.

Dótturfélög Avia Solutions Group starfrækja m.a. flugvélaleigu (e. ACMI), viðhald flugvéla (e. MRO) og kaup og sölu flugvéla. Þá býður félagið upp á nám og námskeið fyrir flugmenn og flugfreyjur, m.a. í flughermum, starfrækir fjölda viðhaldsstöðva, leiguflugmiðlun, eldsneytissölu, flugafreiðslustöðvar og fleira tengt flugi. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Kýpur en stærsta starfsstöðin er í Litháen.