Kaupþing banki á ekki í viðræðum við breska verðbréfafyrirtækið Shore Captial um að kaupa rannsóknar- og verðbréfaeiningu félagins, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins. Breska blaðið The Times sagði í frétt í gær að Kaupþing hefði haft samband við ráðgjafa Shore Capital, fjárfestingabankann Rothschild, og óformlega lýst yfir áhuga á einingunni.

Haft hefur verið eftir stjórnendum Kaupþings að bankinn hafi áhuga á því að kaupa verðbréfafyrirtæki. Líklegt er að bankinn sé að velta fyrir sér ýmsum möguleikum í því sambandi en heimildamenn Viðskiptablaðsins fullyrða að Shore Capital sé ekki inni í myndinni.

Kaupþing keypti breska fjárfestingabankann Singer & Friedlander í vor og síðan hafa fjármálasérfræðingar búist við því að bankinn leiti næst að verðbréfafyrirtæki til þess að styrkja stöðu sína enn frekar. Bankinn hefur verið bendlaður við breska félagið Collins Stewart og verðbréfamiðlunarfélögin Numis Securities og Evolution Group. Það hefur svo komið í ljós að nokkrir fjárfestingasjóðir munu líklegast gera tilboð í Collins Stewart en ekki Kaupþing.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.