Athafnamaðurinn Robert Tchenguiz, einn af helstu viðskiptavinum Kaupþings banka í Bretlandi, er að undirbúa kauptilboð í bresku pöbbakeðjuna Mitchells & Butlers, samkvæmt heimildum Viðskipablaðsins.

Talið er Kaupþing banki, Royal Bank of Scotland, Bank of Scotland og Goldman Sachs hafi sölutryggt lánsfjármögnun til að styðja við kaupin, sem metin eru á 2,3 milljarða punda (285 milljarðar íslenskra króna), eða fjóra milljarða punda að skuldum félagins meðtöldum.

Sérfræðingar búast við að Tchenguiz ætli sér að sameina félagið Globe Pub Company, sem er í hans eigu.

Kaupþing studdi kaup Tchenguiz og fleiri fjárfesta á bresku matvöruverslunarkeðjunni Somerfield og talið er að bankinn eigi um 20% hlut í félaginu. Einnig tók Kaupþing þátt í kaupum Tchenguiz á bresku pöbbakeðjunni Laurel Pub Compnay.

Kaupþing mun styðja kaupin með því að sölutryggja sambankalán, ásamt hinum þremur bönkunum. Ekki er vitað hvort að bankinn taki stöðu í félaginu ef kaupin ganga eftir. Bankarnir, sem fjámagna kaupin, munu svo selja niður hluta fjármögnunarinnar til annarra fjárfesta til að draga úr eigin áhættu.