Auðjöfurinn Robert Tchenguiz þykir líklegur til að kaupa bresku pöbbakeðjuna Spirit Group og er væntanlegt formlegt tilboð hans fjármagnað af Kaupþingi Banka og breska bankanum Barclays, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Tilboð Tchenguiz nemur 2,8 milljörðum punda, sem samsvarar um 300 milljörðum íslenskra króna. Hann á nú þegar breska pöbbafyrirtækið Laurel Pubs, en það var einmitt Kauþing banki sem kom að fjármögnun kaupa hans á fyrirtækinu og keypti einnig hlut í því. Laurel Pubs rekur meðal annars barkeðjuna Slug and Lettuce.

Talið er að það komi til greina að fjárfestingararmur Kauþings banka muni einnig fjárfesta í Spirit Group ef af kaupunum verður. Félagið rekur um 1800 pöbba víðsvegar um Bretland.

Vert er að geta þess að ef af viðskiptunum verðum mun fjármögnunin verða í formi sambankaláns þar sem hluti af láninu er seldur niður til annarra fjármálastofnanna og Kaupþing banki og Barclays munu ekki halda eftir nema hluta af láninu.

Hópur fjárfesta, sem leiddur var af Tchenguiz, keypti nýlega bresku verslunarkeðjuna Somerfield fyrir rúmlega milljarð punda. Fjárfestingararmur Kaupþings fjárfesti í félaginu og á nú um 20% hlut í Somerfield.