Kaupþing banki hefur stefnt útgáfufélagi danska Ekstrablaðsins fyrir dómstól í London. Tilefni stefnunnar er umfjöllun Ekstrablaðsins um Kaupþing og stjórnendur bankans í greinarflokki þeim sem blaðið stóð fyrir um umsvif Íslendinga í Danmörku síðastliðið haust. Um leið hefur lögmaður bankans í Danmörku sent kvörtun til Pressenævnet, siðanefndar danska blaðamannafélagsins.

Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra Samskiptasviðs, telur bankinn sig hafa orðið fyrir skaða vegna þessarar umfjöllunar. Bæði efnislegum skaða og einnig hafi orðspor bankans beðið hnekki.  Jónas segir að það séu staðreyndarvillur og rangfærslur í greinunum, auk þess sem blaðamennirnir virðist hafa lagt sig fram um að gera hlut bankans sem verstan, meðal annars með því að skrifa um vargöld í Rússlandi og bankann í einni og sömu opnunni.

Stefnan í Bretlandi beinist að vefsíðu Ekstrablaðsins www.ekstrabladet.dk en jafnóðum og greinarflokkurinn birtist í blaðinu birtust greinar á ensku á vefsíðunni, sem stjórnendur Kaupþings telja að hafi haft skaðleg áhrif umfram það sem umfjöllun blaðsins í Danmörku gaf tilefni til. Eru tilteknar níu greinar. Þar sem greinar Ekstrablaðsins hafi birst á enskum vefsíðum blaðsins í Bretlandi telja breskir lögmenn Kaupþings að bresk meiðyrðalög nái til umfjöllunar Ekstrablaðsins.

Greinarnar birtust á vefnum á milli 29. október og 10. nóvember síðastliðinn. Eins og menn muna án efa úr málaferlum Jóns Ólafssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þá samþykkja breskir dómsstólar lögsögu í meiðyrðamálum þó erlendir aðilar eigi í hlut hafi ummælin birst á ensku í Bretlandi. Að jafnaði eru dæmdar bætur í meiðyrðamálum mun hærri í Bretlandi en t.d. Danmörku og á Íslandi.


Málið alvarlegra þegar greinarnar birtust á ensku

Að sögn Jónasar var ákveðið að stefna í Bretlandi vegna þess að greinarnar voru þýddar á ensku og þeir töldu sig hafa vissu fyrir því, að margir hafi lesið greinarnar þannig. "Hefðu greinarnar eingöngu verið birtar á dönsku, hefði mátt telja að skaðinn hefði orðið minni, en þegar búið var að þýða greinarnar á ensku fannst okkur málið verða alvarlegra," sagði Jónas.

Stjórnendur Kaupþings telja að umfjöllun Ekstrablaðsins hafi verið meiðandi, full af rangfærslum og í raun með öllu ósönn, enda má segja að þeir hafi mótmælt fullyrðingum blaðsins frá upphafi. Eftir að hafa leitað leiðréttinga og afsökunarbeiðna af hálfu Ekstrablaðsins án árangurs telja stjórnendur Kaupþings banka sig ekki eiga annars úrkosta nú en að stefna útgáfufélagi Ekstrablaðsins, JP Politikens Hus A/S.

Lögfræðingar Kaupþings skrifuðu ristjórum Ekstrablaðsins í byrjun desember síðastliðins þar sem þeir kröfðust leiðréttinga og fóru fram á afsökunarbeiðni. Um leið var greint frá væntanlegri málshöfðun en stefnan var þingfest síðastliðinn föstudag í undirrétti í London (e. High court of justice queens bench division). Lögmenn Kaupþings hafa falast eftir upplýsingum um fjölda heimsókna á umræddar netsíður vegna málarekstursins.

En óttast Kaupþingsmenn ekki að vera með þessu að vekja upp málið, sem virðist að mestu fallið í gleymsku?

"Kaupþing hefur áður orðið fyrir óvægnum skrifum, en ekki hirt um að svara fyrir sig. Nú fannst okkur sem farið hefði verið yfir strikið. Við þolum vel að vera í sviðsljósi fjölmiðla.  Það er hluti af því að vera stórt fyrirtæki, en við viljum að sanngirnir sé gætt.  Okkur finnst vanta verulega upp á það í skrifum Ekstrablaðsins," sagði Jónas. Á þessu stigi málsins er ekki ljóst hve háar kröfur bankans á hendur blaðinu verða.

Danskir fjölmiðlar hafa sagt frá málinu og í Jótlandspóstinum kom fram að þetta sé í fyrsta sinn sem dönskum fjölmiðli er stefnt með þessum hætti í öðru landi.