Stjórn Nýja Kaupþings banka hefur ákveðið að auglýsa eftir umboðsmanni viðskiptavina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum er sagt í samræmi við tillögur sem vinnuhópur á vegum ríkisstjórnarinnar kynnti þann 2. desember síðastliðinn.

„Umboðsmaðurinn verður óháður og starfar í umboði stjórnar bankans,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að hlutverk hans er meðal annars að gæta þess að bankinn mismuni ekki viðskiptavinum með óeðlilegum hætti, að ferli við endurskipulagningu fyrirtækja og aðrar mikilvægar ráðstafanir sé gagnsætt og skráð, og að bankinn gæti að samkeppnissjónarmiðum.

Staðan verður auglýst á næstu dögum.

„Hlutverk umboðsmanns er að yfirfara ákvarðanir bankans um lánaaðlögun fyrirtækja áður en þær koma til framkvæmda, með tilliti til þess að meðhöndlun mála sé í samræmi við tilmæli og verklagsreglur og að sanngirni sé gætt við úrlausn mála,“ segir  Magnús Gunnarsson formaður stjórnar Nýja Kaupþings í tilkynningunni.

„Við bindum miklar vonir við starf umboðsmanns og að það megi auka gagnsæi og traust á starf bankans.“