Kaupþing banki birtir uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í dag og búast greiningaraðilar við að bankinn skili metafkomu. Glitnir spáir að hagnaður bankans komi til með að nema rúmlega 39 milljörðum en Landsbankinn er ögn hófsamari og spáir 31 milljarðs króna hagnaði.

Til samanburðar nam hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins rúmlega 32 milljörðum og hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 12,6 milljörðum króna. Það er sala Kaupþings á hlut sínum í Exista sem dregur vagninn en gengishagnaður bankans vegna sölu og skráningar Exista nemur tæpum 26 milljörðum. Einnig er gert ráð fyrir að hagnaður af hlutabréfasafni bankans verði töluverður vegna hagstæðrar þróunar á hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndum. Þá hefur tímabilið einkennst af miklum umsvifum í ráðgjöf, eignastýringu og miðlum sem hefur jákvæð áhrif á þóknanatekjur bankans.

Báðar greiningardeildir gera ráð fyrir að vaxtatekjur Kaupþings dragist saman frá öðrum ársfjórðungi en þá voru þær 14,3 milljarðar. Greining Glitnis gerir ráð fyrir að þær verði 12,8 milljarðar en spá Landsbankans hljóðar upp á 13,2 milljarða. Ástæðan er minni verðbólga og styrkingu krónunnar. Þá spá greiningaraðilar að rekstratekjur verði á bilinu 56,3 milljarðar (Landsbankinn) til 62,1 milljarður (Glitnir). Rekstratekjur námu 31 milljarði á öðrum ársfjórðungi og 66,5 milljörðum á fyrri helmingi ársins.