Kaupþing banki hf. gaf á miðvikudag út skuldabréf í Bandaríkjunum fyrir samtals þrjá milljarða bandaríkjadala eða sem nemur 210 milljörðum króna, segir í tilkynningu bankans.

Þar með hefur Kaupþing banki lokið endurfjármögnun þeirra langtímalána sem koma til gjalddaga á árinu 2007. Mikil umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum og var útgáfan töluvert stærri en gert var ráð fyrir í upphafi, segir í tilkynningunni.

Skuldabréfaútgáfan er þrískipt, til þriggja, fimm og tíu ára. Skuldabréfin til þriggja ára eru að upphæð 1,0 milljarður bandaríkjadala og með fljótandi vöxtum. Verðlagning þeirra er 70 punktar yfir Libor vöxtum. Skuldabréfin til fimm ára nema samtals 1,5 milljörðum bandaríkjadala og eru með föstum vöxtum. Verðlagning þeirra er 130 punktar yfir bandarískum ríkisskuldabréfum. Þá gaf bankinn út 500 milljónir bandaríkjadala til tíu ára með föstum vöxtum og er verðlagning þeirra 155 punktar yfir bandarískum ríkisskuldabréfum.

Kaupendur skuldabréfanna voru rúmlega 200 stofnanafjárfestar. Mikil eftirspurn var eftir skuldabréfum bankans en alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa fyrir 9,0 milljarða bandaríkjadala eða sem nemur 630 milljörðum íslenskra króna. Þessi skuldabréfaútgáfa er stærsta lántaka Kaupþings banka frá upphafi, segir í tilkynningunni.

Umsjónaraðilar með útgáfunni voru Citigroup, Lehman Brothers, Merrill Lynch og Credit Suisse.