Kaupþing banki hf. seldi í dag 8,75% hlutafjár í Baugi Group hf. og hefur þar með selt allan hlut sinn í félaginu. Innleystur hagnaður vegna sölunnar nemur um 3,3 milljörðum króna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að kaupandi hlutanna er fjárfestingafélagið Gaumur og Eignarhaldsfélagið ISP.

Með sölunni lýkur verkefni sem hófst árið 2003 með yfirtöku og afskráningu Baugs Group hf. úr Kauphöll Íslands ásamt skiptingu þess í fjárfestingafélagið Baug Group hf. og smásölufyrirtækið Haga hf. Þar sá bankinn um ráðgjöf og fjármögnun og eignaðist við það um fimmtungs hlut í Baugi Group hf.

Kaupþing banki hefur um árabil starfað með Baugi Group að ýmsum umbreytingarverkefnum á fyrirtækjum og mun salan á eignarhlutanum nú engin áhrif hafa á áframhaldandi samstarf.