Kaupþing banki áformar útboð á nýjum hlutum í bankanum sem nemur allt að 10% af heildarhlutafé í bankanum, segir í tilkynningu.

Sótt verður um skráningu á þeim nýju hlutum, sem gefnir verða út í tengslum við útboðið, á aðallista Kauphallar Íslands og á O-lista Kauphallarinnar í Stokkhólmi.

Rekstur Kaupþings hefur vaxið verulega á undanförnum árum og þá einkum utan Íslands. Hluthafar bankans eru þó enn að langmestu leyti íslenskir og endurspeglar það því fyrri stefnu bankans, það er, að leggja mesta áherslu á starfsemina á Íslandi, segir í tilkynningunni.

Stjórnendur bankans eru þeirrar skoðunar að breiðari grunnur alþjóðlegra fjárfesta, til viðbótar við hinn stöðuga hóp íslenskra hluthafa, muni styðja við vöxt og viðgang bankans auk þess sem það muni auka enn frekar seljanleika hluta í bankanum, segir í tilkynningunni.

Í ljósi þessa er markmið Kaupþings með þessu útboði einkum að breikka hluthafahóp bankans með því að auka þar hlutfall alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Hlutafjárútboðið mun jafnframt styrkja eiginfjárgrunn bankans og styðja við núverandi stefnu um hagkvæmustu nýtingu fjármagns, segir í tilkynningunni.

Útboðið, samantekt:

-Útboð á nýjum hlutum til alþjóðlegra stofnanafjárfesta.

-Kaupþing hyggst gefa út nýja hluti sem nema allt að 10% af heildarfjölda útgefinna hluta í bankanum. Gert er ráð fyrir að útboðinu ljúki fyrir lok árs en það er þó háð markaðsaðstæðum.

-Stjórn bankans mun í útboðinu nýta heimild til hlutafjárhækkunar sem gefin var á aðalfundi bankans þann 17. mars síðastliðinn að því marki sem nauðsynlegt reynist. Hluthafar bankans hafa jafnframt fallið frá forgangi að hlutunum.

-Umsjónaraðilar útboðsins og áskriftarverðlagningar eru Citigroup Global Markets Limited og Morgan Stanley & Co International Limited. Aðstoðarumsjónaraðili í útboðinu verður Fox-Pitt, Kelton N.V.

?Það er áhugavert fyrir Kaupþing að geta selt hlutafé á alþjóðlegum fjármálamarkaði og stuðla þannig að frekari framþróun bankans. Undanfarin ár hefur Kaupþing verið í hópi þeirra banka sem vaxið hafa hvað hraðast í Evrópu og með stefnu okkar um innri vöxt og yfirtökur hefur bankinn náð góðri fótfestu í norður Evrópu. Sú staðreynd að meirhluti tekna okkar og hagnaðar myndast utan Íslands endurspeglar árangur þessarar stefnu okkar.

Breiðari og alþjóðlegri hluthafahópur mun styðja við frekari vöxt bankans jafnframt því sem eiginfjárgrunnur bankans styrkist. Takist þetta ætti fjármögnunarkostnaður bankans að lækka auk þess sem styrkari stoðum er skotið undir langtíma vaxtarstefnu bankans," segir Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka.