Kaupþing banki hefur verið að kaupa hlutabréf í bresku pöbbakeðjunni Mitchells & Butler fyrir íranska athafnamanninn Robert Tchenguiz, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Eignarhluturinn nemur nú 8,4% en Tchenguiz, ásamt Kaupþingi banka, gerði óformlegt kauptilboð í M&B að virði 2,7 milljarðar punda, auk skulda, sem samsvarar 362 milljörðum íslenskra króna. Tilboðinu var hafnað og því var ekki fylgt eftir með formlegu tilboði, sem leiðir til þess að Tchenguiz má ekki gera annað tilboð í félagið næstu sex mánuði.

Ekki er talið að Kaupþing hafi ætlað sér að taka stóra stöðu í M&B og líklegt er að bankinn hefði komið að fjármögnun viðskiptanna, auk þess að vera ráðgjafi Tchenguiz.

Eignarhlutur Tchenguiz í M&B er geymdur í fjárfestingafélaginu Violet Capital, sem einnig er í eigu Kaupþings banka. Violet er til dæmis verulegur hluthafi í Somerfield-verslunarkeðjunni.