Ársskýrsla Kaupþings banka var valin ársskýrsla ársins 2004 af dómnefnd á vegum Stjórnvísis. Í niðurstöðu dómnefndar kemur fram að ársskýrsla Kaupþings banka er ítarleg og vönduð. "Hún gefur hluthöfum og öðrum fjárfestum greinargóða mynd af starfsemi og stöðu bankans, helstu viðfangsefnum, þróun og vexti."

Einnig telur dómnefndin að ársskýrslan uppfylli í öllum aðalatriðum þær kröfur sem Kauphöll Íslands og dómnefndin gerir til góðrar ársskýrslu um efni og framsetningu.

Í niðurstöðu sinni tekur dómnefndin fram að hún vill sérstaklega hrósa umfjöllun um fjárhagslega áhættu og hvernig henni er stjórnað, um stjórnunarhætti fyrirtækisins og áhrif innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Talnaefni sé sett fram með skýrum hætti.

Ársskýrslur Actavis og Íslandsbanka voru einnig tilnefndar og þóttu einnig prýðilegaunnar, þótt upplýsingamagn og umfjöllun gangi nokkru skemmra í þágu hluthafa.