Greiningardeild Kaupþings banka hefur unnið nýtt verðmat á Landsbankanum samhliða útgáfu afkomuspár fyrir annan ársfjórðung og mælir með kaupum í bankanum.

?Niðurstaða mats okkar gefur verðmatsgengið 27,4 kr. á hlut (e. DDM value) og er það óveruleg breyting frá síðast verðmati okkar á félaginu þann 11. maí síðastliðinn (verðmatsgengið 27,6 kr. á hlut). Þá höldum við 12 mánaða markgengi okkar (e. Target Price) óbreyttu frá síðasta verðmati í 30,8 krónum á hlut," segir greiningardeildin en gengi bankans við lok markaðar í dag var 20,20 krónur á hlut.

Mælir með kaupum

Greiningardeildin segir að Landsbankinn komi vel út í hlutfallslegum kennitölusamanburði við hóp erlendra banka. ?Miðað við spá okkar um afkomu bankans á árinu 2007 fæst V/H hlutfallið 7,2 og V/I hlutfallið 1,3. Til samanburðar er meðal V/H hlutfall samanburðarhópsins 10,1 yfir sama tímabil og meðal V/I hlutfall upp á 1,8. Byggt á hagstæðum kennitölusamanburði og verðmatsgengi okkar upp á 27,4 krónur á hlut höldum við ráðgjöf okkar óbreyttri og mælum áfram með kaupum á hlutabréfum Landsbankans," segir greiningardeildin.

Aukning vaxtekna

Hún býst við góðu uppgjöri fyrir nýliðinn fjórðung og er það sér í lagi vegna mikillar aukningu í hreinna vaxtatekna.

?Stafar það annars vegar af miklum verðtryggingarójöfnuði bankans og hárri verðbólgu á fjórðungnum og hins vegar verulegri stækkun útlánasafnsins í íslenskum krónum vegna mikillar veikingar krónunnar það sem af er ári. Uppfærð spá okkar gerir ráð fyrir að bankinn skili 7,4 milljarða króna hagnaði á fjórðungnum og afkoma bankans á árinu í heild verði um 37,2 milljarðar króna eftir skatt," segir greiningardeildin.