Kaupþing banki hefur ráðið fjóra bankamenn frá þýska fjárfestingabankanum Dresdner Kleinwort Wasserstein (DrKW) til starfa hjá nýrri verðbréfamiðlunareiningu bankans í London, segir í frétt Financial Times.

Kaupþing réð nýlega Tim Cockcroft frá KBC Peel Hunt til að setja upp eininguna og hefur hann verið duglegur að ráða starfsmenn til sín. Fyrr í vikunni var tilkynnt um að Hugh McAlister og Paul Wedge hafi verið ráðnir til starfa hjá einingunni, en McAlister starfaði áður hjá DrKW og Wedge hjá KBC Peel Hunt, sem er verðbréfamiðlunareining belgíska bankans KBC Bank í London.

Kaupþing banki hefur verið á höttunum eftir verðbréfamiðlunarfyrirtæki og hefur meðal annars verið orðaður við Evolution, Collins Stuart og Williams de Broe, sem nú á reyndar í yfirtökuviðræðum við Evolution.

Samkvæmt heimildum hefur bankinn tekið þá ákvörðun að kaupa ekki breskt verðbréfafyrirtæki að svo stöddu, heldur byggja slíka einingu upp frá grunni. Talsmaður Kaupþings banka benti á að starfólkið væri dýrmætasta eign slíkrar einingar og með því að kaupa yfir starfsfólk væri hægt að setja upp slíka einingu auðveldlega.

Steven Floyd, Mark Gibbons, Edward de Giles and Simon Garner hafa því verið ráðnir til starfa hjá einingunni af Cockroft frá DrKW.