Svo virðist sem hvorki Kaupþing banki né Straumur geti með beinum hætti tekið þátt í kaupum á Landssímanum vegna eignarhlutar fyrirtækjanna í Kögun.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í morgun var Kögun neitað um útboðsgögn vegna sölu Símans. Það var gert á grundvelli þess að Kögun á um 97% hlut í Opnum kerfum, sem aftur á 100% í Skýrr, sem er í samkeppni við Landssímann á sviði internetþjónustu.

"Við miðum við að kaupandi megi ekki ráða yfir meiru en 5% atkvæða, beint eða óbeint, í keppinauti Símans," segir Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, um skilyrði nefndarinnar í viðtali við Viðskiptablaðið.

Samkvæmt nýjustu flöggunarfréttum í Kauphöllinni á Kaupþing banki 15,89% og Straumur 20,83% hlut í Kögun. Því virðist ljóst að báðir bankarnir ráði með óbeinum hætti yfir meira en 5% hlut í Skýrr.

Niðurstaða einkavæðingarnefndar um Kögun virðist því einnig eiga við um Kaupþing banka og Straum.

Málið gæti hins vegar horft öðru vísi við ef Kaupþing banki og/eða Straumur taka ekki þátt í kaupum á Símanum sem sjálfstæðir aðilar, heldur sem eigendur að hlut í öðru félagi eða félögum sem standa að tilboði.

Jón Sveinsson vildi í dag ekki tjá sig um einstök eignatengsl en sagði að einkavæðingarnefnd myndi fara rækilega yfir þau til þess að kanna hvort þau samræmdust skilyrðum nefndarinnar.