Greiningardeild Kaupþings banka spáir 0,8% hækkun á vísitölu neysluverðs í júní og mun 12 mánaða verðbólga því hækka í 7,7%.

?Að þessu sinni mun hækkun á innfluttum varningi og hækkandi húsnæðisverð leggja mest til hækkunar á vísitölunni," segir greiningardeildin.

Hún segir að fasteignaverð hafi hækkað um 1,1% í apríl og hefur fasteignaverð hækkað um 1,6% að meðaltali síðastliðna 3 mánuði og gerir hún ráð fyrir að húsnæðisliðurinn leggi til 0,25-0,30 prósentustig til hækkunar á vísitölunni að þessu sinni.

?Áhrif gengisveikingar krónunnar komu berlega í ljós í síðustu vísitölumælingu og hækkaði verð á innfluttum vörum um 1% sem hafði 0,15% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin reiknar með 2% hækkun á innfluttum vörum sem mun hafa þau áhrif að vísitala neysluverðs hækkar um 0,3%.

?Aukið launaskrið hefur leitt til verðskrárhækkana á ýmis konar þjónustu að undanförnu. Í síðasta mánuði hækkaði verð á þjónustu um 0,7% sem hafði um 0,15% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar," segir greiningardeildin sem gerir ráð fyrir sams konar hækkun á þjónustu í þessum mánuði en á þessum árstíma eru verðskrárhækkanir á veitingahúsum og kaffihúsum algengar.