Erlendir greiningaraðilar falla enn og aftur í þá gryfju að bera skuldastöðu landsins saman við verga landsframleiðslu, segir greiningardeild Kaupþings banka um nýútkomna skýrslu Danske Bank um íslenska hagkerfið.

Það gefur verulega ranga mynd þar sem hagkerfið hýsir mörg stór fyrirtæki með umfangsmikla starfsemi erlendis, segir greiningardeildin og tekur sem dæmi að ef efnahagsreikningar íslensku viðskiptabankanna þriggja eru lagðir saman er það um fimmföld landsframleiðsla ársins 2005.

Í þjóðhagsspá Danske Bank er gert ráð fyrir 5-10% samdrætti í landsframleiðslu á næstu árum, sem að mati greiningardeildarinnar er einkar ólíkleg niðurstaða.

Í skýrslu Danske Bank kemur fram að allar íslenskar hagsveiflur hafi endað með harðri lendingu, þar með talið árin 1999 og 2002.

Að auki segir í skýrslunni að viðskiptahallinn á síðasta ári hafi verið 20% og að launahækkanir hafi verið aðalástæða verðbólgu á allra síðustu árum.

Í skýrslu Danske Bank er Ísland borið saman við Taíland og Tyrkland, til þess að styðja þá niðurstöðu að Ísland sé á leið í fjármálakreppu líkt og þessi lönd á sínum tíma, segir greiningardeildin.

Kaupþing banki segir hins vegar að Ísland eigi lítið sameiginlegt með fyrrnefndum löndum, að undanskildum miklum viðskiptahalla og hraða aukningu útlána.

Íslendingar voru ekki með fastgengisstefnu á þessum tíma né heldur hafa þeir notað erlend lán til fasteignakaupa líkt og þessar þjóðir á þeim tíma, segir greiningardeildin.