Alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Blackstone hefur samþykkt að kaupa bresku veitingahúsakeðjurnar Café Rouge og Bella Italia fyrir 267 milljónir punda, sem samsvarar tæplega 36 milljörðum íslenskra króna. Greint var frá kaupunum um helgina.

Breskir fjölmiðlar orðuðu Kaupþing banka við veitingahúsakeðjurnar og talið er að bankinn hafi verið að vinna að hugsanlegum kaupum á fyrirtækinu fyrir viðskiptavini sína.

Eignarhaldsfélagið Tragus Holding vann að skráningu veitingahúsanna í kauphöllin á London en breytti áætlunum sínum eftir að nokkrir fjárfestingasjóðir sýndu áhuga á því að kaupa fyrirtækið.

Kaupþing banki var nefndur sem hugsanlegur kaupandi í breskum fjölmiðlum. Hins vegar hefur bankinn ekki keypt fyrirtæki í Bretlandi, en hefur tekið stöður með viðskiptavinum sínum og séð um að fjármagna yfirtökur og veita ráðgjöf.