Kaupþing banki hefur selt Exista 24% eignarhlut bankans í VÍS eignarhaldsfélagi hf. (VÍS) og hafið þar með ferli sem miðar að því að eignarhlutur Kaupþings banka í Exista verði óverulegur eins og tilkynnt var um á aðalfundi bankans í mars.

Kaupþing banki fær kaupverð eignarhlutarins í VÍS greitt með nýútgefnum hlutum í Exista. Við það eykst eignarhlutur bankans í Exista tímabundið, úr 19% í 21% segir í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.

Stjórn Exista stefnir að því að skrá félagið í Kauphöll Íslands í september. Stjórn Kaupþings banka mun leggja það til við hluthafafund að um helmingur eignarhlutar bankans í Exista verði greiddur til hluthafa bankans sem auka arðgreiðsla.

Kaupþing banki mun selja hluti í Exista til fagfjárfesta í tengslum við skráninguna - fyrirkomulagið verður áskriftarverðlagning (e. book-building).

Markmið Kaupþings banka er að eignarhald bankans í Exista verði óverulegt.

Söluverðið á eignarhlutnum í VÍS nemur 15,9 milljörðum króna og bókfærir bankinn 7,0 milljarða króna hagnað á öðrum ársfjórðungi vegna sölunnar.

Heildarverðmæti VÍS í kaupunum er 65,8 milljarðar króna og heildarverðmæti Exista eftir kaupin á VÍS er metið á 288 milljarða króna.