Kaupthing Bank og hlutafélagið Fram Invest í Færeyjum hafa eignast 98,5% í færeyska fjárfestingarfélaginu Notio að því er kemur fram í frétt fréttavefsins skip.is. Þetta gerðist eftir að bankinn og Fram Invest keyptu 66% hlut Sparikassagrunnsins og hlutafélagsins 14 í Notio.

Skip.is vísar í frétt færeyska útvarpsins en þar kemur fram að Kaupthing Bank og Fram Invest, með Anfinn Olsen í fararbroddi, eigi jafnan hlut í Notio eða 49,25% hvort félag.

Í framhaldi af þessum viðskiptum hefur verið stofnað hlutafélagið Notio Seafood en því er ætlað að fara með eignarhlut Notio í Faroe Seafood, stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Færeyja, en Notio á 24% hlut í Faroe Seafood. Meðeigendur Notio í Notio Seafood er hlutafélagið 14 eða smápartafélagið 14 eins og það nefnist á færeysku.

Fram kemur í fréttinni að nauðsynlegt hafi verð að stofna nýtt félag um hlutabréfaeignina í Faroe Seafood, sem varð til við sameiningu Föroya Fiskasölu og Föroya Fiskavirking, vegna færeyskra laga um eignarhald útlendinga í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum.