Eignarhlutur Kaupþings banka í bresku matvöruverslunarkeðjunni Somerfield er orðinn verulegur og talið er að hann nemi um 20%, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Hópur fjárfesta samþykkti nýlega að kaupa Somerfield og nemur kaupverðið 197 pens á hlut, eða því sem nemur 1,1 milljarði punda (117 milljarðar íslenskra króna).

En samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það ekki mögulegt að hluturinn verði seldur til Baugs, sem varð að hætta við þáttöku í kaupunum vegna Baugsmálsins. Fjárfestahópurinn sem hefur samþykkt að kaupa Somerfield samanstendur af fjárfestingasjóðnum Apax, breska bankanum Barclays og kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz. Saman eiga Kaupþing og Tchenguiz eignarhaldsfélagið Tazamia Limited og eftir kaupin mun það félag eiga um 33% hlut í Somerfield, segja heimildamenn Viðskiptablaðsins. Ekki er vitað hvernig eignarhlutnum er skipt upp á milli Kaupþings og Tchenguiz en talið er að heildareignarhlutur Kauþings nemi rúmlega 20%. Fyrir kaupin átti Kaupþing lítinn hlut í Somerfield.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja að Barclays bankinn hafi þrýst á Baug til að draga sig úr fjárfestahópnun vegna Baugsmálsins. Einnig er talið að bankinn hafi séð til þess að Kaupþing geti ekki selt hlut sinn til Baugs og sé þannig ekki að geyma hann þangað til niðurstaða fæst í Baugsmálinu. Hæstiréttur vísaði nýlega frá 32 ákærum af 40 í Baugsmálinu vegna tæknilegra annmarka.

Baugur hóf samkeppnina um Somerfield í febrúar þegar félagið gerði óbindandi tilboð að virði 190 pens á hlut. Stuttu síðar bættust fleiri hugsanlegir kaupendir í hópinn, þar á meðal Apax, Tchnguiz og Livingstone-bræðurnir. Talið er að Kaupþing, sem hefur áður unnið með Baugi og Tchenguiz, hafi stuðlað að því að mynda fjárfestahópinn sem á endanum samþykkti að kaupa Somerfield og segja heimildamenn Viðskiptablaðsins að Kaupþing fái verulega þóknun fyrir það.

Bankinn mun þó ekki taka þátt í að leiða fjármögnun viðskiptanna, sem eru að mestu fjármögnuð með sambankaláni. Barclays Capital, Citigroup og Royal Bank of Scotland hafa sölutryggt lán til að styðja við yfirtökuna, sem síðar verður selt til annarra banka á sambankalánamarkaði. Upphæð lánsins hefur ekki fengist staðfest.