Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, getur vel hugsað sér að bankinn fjárfesti frekar í Svíþjóð en þó ekki á íbúðalánamarkaðnum því hið ríkisstyrkta lánasjóðskerfi í Svíþjóð geri það ekki spennandi, ef marka frétt á vef sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri.

"Við sjáum ekki marga möguleika á þessum markaði í Svíþjóð," segir hann í fréttinni en útilokar þó ekki að fjárfest verði í öðrum fyrirtækjum. "En það verður að vera fyrir rétt verð. Ef maður horfir á yfirtökurnar sem við fórum í á árunum 2003 til 2005 borguðum við 1,5 sinnum hið bókfærða virði. Í dag er verðið þrefalt til fjórfalt hið bókfæra virði."

Kaupþing opnaði starfstöð í Stokkhólmi fyrir sjö árum og keypti árið 2002 sænsku fyrirtækin Aragon og JP Nordiska en bankinn hefur vaxið gríðarlega síðan þá.

"Áhersla okkar í Svíþjóð er að auka fjárfestingabankastarfsemi og við trúum því að við getum vaxið hraðar en samkeppnisaðilarnir. Við erum í góðri samvinnu og með lykilstarfsfólk og þurfum ekki að yfirtaka fleiri fyrirtæki til að halda áfram að vaxa. Við höfum góðan grunn," segir Hreiðar Már.

Hann vill einnig auka umsvif bankans í Finnlandi og Noregi, og íhugar aðra markaði utan Norðurlandanna. "Næsta eðlilega skref er að fara til Eystrasaltsríkjanna."

Kaupþing sýndi á miðvikudag nettó hagnað upp á 2,7 milljarða sænskra króna í uppgjöri fyrir annan árshluta sem var aukning um 95% frá sama tíma á síðasta ári og mun betri árangur en væntingar og spár gerðu ráð fyrir.

"Við byrjuðum að uppskera eftir fjárfestingar á síðasta ári. Við erum að sjá góðar niðurstöður frá öllum mörkuðum okkar," segir Hreiðar Már um annan ársfjórðunginn.

Gengi Kaupþings hefur gengið best í kauphöllinni í Stokkhólmi með um 19% hækkun síðan um mitt sumarið.