Kaupþing jók í dag hlut sinn í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand í 10,43% úr 7,8%, samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar í Osló, en bankinn fékk leyfi frá fjármálayfirvöldum í gær til að eignast 20% hlut í félaginu.

Gengi hlutabréfa Storebrand hækkaði mest um 13,3% í dag vegna væntinga um að Kaupþing eða norska tryggingarfélagið Gjensidige geri tilraun til þess að taka yfir Storebrand. Gjensidige fékk einnig leyfi í gær til að eiga allt að 20% hlut í Storebrand.

Kaupþing keypti í dag 2,5 milljónir hluta á meðalgenginu 94,42 norskar króna á hlut.

"Það lítur út fyrir að Kaupþing og Gjensidige muni keppa um að kaupa fyrirtækið," segir Matti Ahokas, sérfræðingur hjá Handelsbanken Capital Markets.

Hluthöfum í norskum bönkum og tryggingarfélögum er einungis leyft eiga 10% hlut án þess að sækja um sérstakt leyfi frá fjármálayfirvöldum.

Gjensidige er stærsti hluthafinn í Storebrand með 9,99% hlut og Kaupþing banki var skráður fyrir 7,8% hlut fyrir kaupin í dag. Hins vegar er Arion Custody (safnreikningur), sem stýrt er af Kaupþingi, með 8,8% hlut í Storebrand.