Kaupþing hefur aukið hlut sinn í norska tryggingafélaginu Storebrand í um 9%. Þetta kemur fram í samtali fréttaveitunnar E24.se við Hreiðar Má Sigurðson forstjóra Kaupþings. Greint er frá þessu í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að Kaupþing hefur smám saman verið að auka hlut sinn í Storebrand og átti í byrjun október 7,8% hlut. Miðað við 9% eignarhlut er verðmæti hlutar Kaupþings nú tæpir 20 milljarðar kr. og hefur aukist um hátt í 6 milljarða kr. frá því í byrjun október. Skýringin á auknu verðmæti hlutarins er þríþætt. Í fyrsta lagi hefur Kaupþing aukið við hlut sinn, í öðru lagi hefur gengi Storebrand hækkað um ríflega tíunda hluta og í þriðja lagi hefur norska krónan hækkað um 7% gagnvart þeirri íslensku bendir Vegvísir á.


Kaupþing hefur bent á að eign félagsins í Storebrand sé hugsuð sem fjárfesting. Norræn fjármálafyrirtæki séu hagstætt verðlögð í samanburði við önnur evrópsk fjármálafyrirtæki og afkoman sterk. Þá sé líklegt að samrunaferli norrænna fjármálafyrirtækja muni halda áfram og líklegt sé að Storebrand verði yfirtekið segir í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans.