Bæði gamla og Nýja Kaupþing hafa ákveðið að falla frá lögbanni sem sett var um helgina á umfjöllun Ríkisútvarpsins um trúnaðarupplýsingar sem láku út um viðskiptavini bankans. Einnig hefur verið ákveðið að höfða ekki staðfestingarmál vegna lögbannsins.

Ríkisútvarpið hefur þetta eftir tilkynningu frá gamla og Nýja Kaupþingi þar sem segi að ástæða lögbannsbeiðnarinnar hafi verið sú að vernda trúnaðarsamband við núverandi viðskiptavini bankans. Á lista með þessum upplýsingum sem birtur hafi verið á vefsíðu, og RÚV hafi sagt frá, hafi verið upplýsingar um marga viðskiptavini Nýja Kaupþings sem ekki tengist á neinn hátt fyrrverandi eigendum bankans.

Markmiðið með lögbannsbeiðninni hafi ekki verið að leyna upplýsingum um lánveitingar til eigenda Kaupþings eða tengdra aðila enda hafi þær upplýsingar legið fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu, sérstökum saksóknara og rannsóknarnefnd Alþingis mánuðum saman.