Mikill slagur stendur nú yfir um tannlækningastofukeðjuna Oasis Healthcare í Bretlandi. Fram kemur í breskum fjölmiðlum að tveir aðilar, ADP sem er þriðja stærsta tannlækningasamstæða Bretlands og Duke Street Capital einkahlutafélag, berjist um hnossið. Kaupþing í Lundúnum er fjárhagslegur bakhjarl ADP, og hljóðar tilboð félagsins upp á 91 pens á hlut, sem er alls 86,9 milljónir punda og 11% hærra en tilboð Duke Street.

Dagslokagengi Oasis á miðvikudag var 93 pens á hlut, en bréf félagsins höfðu þá hækkað um rúm 2% yfir daginn. ADP er nú þegar stærsti hluthafi í Oasis og á nú þegar 18,25% hlut. Kaupþing fjármagnað umsvif ADP frá því í mars á þessu ári.

Nái samruni ADP og Oasis fram að ganga mun hið nýja félag verða hið stærsta sinnar tegundar í Bretlandi og hafa um 190 tannlæknastofur víðsvegar um Bretland á snærum sínum. Breskum lögum sem lúta að tannlækningum var breytt töluvert fyrir ekki alls löngu, sem hefur opnað nokkra högnunarmöguleika fyrir einkaaðila.
Tannlæknum sem vinna verkefni fyrir NHS (National Health Service) er ekki greitt fyrir hverja aðgerð á grundvelli sjóðsúthlutunar, heldur fasta upphæð fyrir ákveðinn fjölda aðgerða sem lokið er.