Áhrifa undirmálslánakrísunnar (e. subprime mortgages) gætir víða á mörkuðum og hafa nú orðið til þess að Kaupþing banki hefur þurft að fresta fyrirhugaðri skuldabréfaútgáfu sinni í Ástralíu. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í júlí, áður en krísan skall á, hafði Kaupþing áform um að sækja að minnsta kosti 15 milljarða króna til andfætlinga með útgáfu kengúrubréfa, skuldabréfa í áströlskum dollurum.

Að sögn Guðna Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings, hefur undirmálslánakrísan sett strik í reikninginn. "Það er tregða alls staðar og lítið að gerast á fjármagnsmörkuðum. Síðustu vikurnar hafa kjörin verið það slæm að eingöngu bankar sem hafa virkilega þörf á fjármagni hafa sótt sér fé á markað," segir Guðni. Að hans sögn er Kaupþing ekki í þeim sporum þar sem lausafjárstaða bankans er góð auk þess sem hluti innlána hefur aukist mikið að undanförnu.


Kaupþing hefur alls sótt 320 milljarða króna á markað það sem af er ári í gegnum skuldabréfaútgáfu víða um heim. Stærstur hluti upphæðarinnar var tryggður á sumarmánuðum áður en undirmálslánakrísan skall á. Undirbúningur kengúruútgáfunnar var hinsvegar í burðarliðnum þegar áhrifa krísunnar fór að gæta. "Það hitti svo illa á að þegar undirbúningurinn fyrir útgáfuna í Ástralíu stóð sem hæst þá byrjaði þessi skúr og enn hefur ekki létt til," segir Guðni.


Að sögn Guðna hefur útgáfan í Ástralíu nú verið sett á ís. "Við bíðum eftir að peningar snúi aftur á markað en þá tökum við upp þráðinn þar sem frá var horfið," segir hann. "Við ætluðum okkur aldrei að sækja stóra upphæð til andfætlinganna en það var fyrst og fremst áhættudreifingin sem útgáfa á þessum slóðum hefur í för með sér sem okkur finnst eftirsóknarverð," segir Guðni.