Kaupþing banki hefur gengið frá fjármögnun með útgáfu víkjandi skuldabréfa að upphæð 1,25 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 88,5 milljörðum króna, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

?Mikil umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en alls höfðu fjárfestar skráð sig fyrir rúmum tveimur milljörðum Bandaríkjadala þegar ákveðið var að loka áskriftarbókinni," segir Kaupþing banki.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa bankanna hækkaði verulega í kjölfar neikvæðra greininga erlendra aðila á síðustu mánuðum. Einnig ákváðu peningamarkaðssjóðir í Bandaríkjunum að endurnýja ekki skuldabréf bankanna í mars og myndaðist skarð í fjármögnun þeirra. Bankarnir segja hins vegar að fjármögnunarþörf fyrir árið hafi verið mætt.

Sérfræðingar segja að jákvæðar skýrslur, þar á meðal skýrsla hagfræðinganna Frederic Mishkin og Tryggva Þórs Herbertssonar fyrir Viðskiptaráð Íslands, hafi róað fjárfesta. Sérfræðingar segja að ávöxtunarkrafan fari nú einnig lækkandi.

Útgáfa Kaupþings banka telst til eiginfjárþáttar B (e. Tier 2) með gjalddaga 2016. Kjörin eru 200 punktar yfir ávöxtunarkröfu bandarískra ríkisskuldabréfa. Kaupendur skuldabréfanna eru bandarískir stofnanafjárfestar, segir Kaupþing banki