Kaupþing byrjar í dag að safna áskriftum fyrir væntanlega skuldabréfaútgáfu á Evrópumarkað. Að sögn Guðna Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar bankans, verður stærð útgáfunnar í kringum 200 milljónir evra sem samsvarar til 16,6 milljarða íslenskra króna. Útboðinu mun að öllum líkindum ljúka á innan við viku en Citi Group, Credit Suisse, Deutsche Bank og HSBC hafa verið fengin til að sjá um útgáfuna og söfnun áskrifta. Um er að ræða víkjandi skuldabréfaútgáfu og getur Kaupþing kallað bréfin til baka eftir fimm ár. Að sögn Guðna er útgáfan aðallega ætluð minni fjárfestum (e. retail investors).


"Við erum búin að hlera fjárfesta úti í heimi og teljum í kjölfarið að þetta mun mælast mjög vel fyrir en viðbrögðin munu koma í ljós á næstu dögum," segir Guðni. Hann treysti sér ekki til að segja til um hvernig kjör útgáfunnar yrðu en býst þó við góðum kjörum enda hefur álag skuldatrygginga Kaupþings á eftirmarkaði lækkað að undanförnu og stendur nú í 25 punktum. "Það virðist vera mikil stemmning fyrir okkar nafni á þessum mörkuðum um þessar mundir," segir Guðni.


Um er að ræða þriðju útgáfu Kaupþings á árinu en áður hafði bankinn staðið fyrir útgáfu í Kanada í byrjun árs og í síðustu viku gaf bankinn út almenna útgáfu til tveggja ára fyrir alls 500 milljónir evra sem samsvarar 44 milljörðum króna. Fyrirhuguð útgáfa mun vera fyrsta víkjandi skuldabréfaútgáfa Kaupþings síðan í desember 2005. "Við höfum hvílt Evrópumarkaðinn mjög vel og höfum sýnt þolinmæði í að bíða og sjá hvernig aðstæður hafa þróast," segir Guðni.


"Núna er rétti tíminn og Evrópumarkaður er kominn aftur inn í fjármögnunarferlið hjá okkur. Það þýðir hinsvegar ekki að hinir markaðirnir séu síður mikilvægir. Til að mynda erum við núna með teymi sem er að hitta fjárfesta í Japan og það getur vel verið að við fylgjum því eftir með útgáfu í jenum í Japan þannig að við höldum áfram að reyna að vera með sem besta landfræðilega dreifingu í okkar útgáfu," bætir hann við. "Við höfum verið það vel sett varðandi lausafjárstöðu að við höfum ekki þurft að hlaupa inn á markaðinn," segir hann.
Að hans sögn er útgáfan nú aðallega til að liðka fyrir frekari vexti bankans. "Víkjandi skuldabréf tala tillit til eiginfjár stöðu bankans að því leyti að þau teljast til eigin fjár. Stækkandi banki þarf að vera með gott eigi fjár hlutfall og því þurfum við að viðhalda. Þess vegna gefum við út víkjandi skuldabréf nú," segir Guðni.