Kaupþing, ásamt fjárfestinum Robert Tchenguiz og fjárfestingafélaginu TFT, hefur gert kauptiloð í hlutafé bresku veitingahúskeðjunnar La Tasca að virði 99 milljónir punda, sem samsvarar tæplega 13 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Eignarhaldsfélagið Tragus, sem á og rekur bresku veitingahúsakeðjurnar Café Rouge og Bella Italia, hefur einnig gert tilboð í La Tasca, sem hljóðar upp á 96 milljónir punda. Stjórnendur La Tasca, sem skráð er á AIM-markaðinn í London, munu segja álit sitt á kauptilboðunum síðar í dag. Tragus er í eigu Blackstone-fjárfestingasjóðsins.

Viðskiptablaðið greindi frá því í febrúar að Kaupþing, ásamt Tchenguiz,  hafi átt í yfirtökuviðræðum við La Tasca. Ef kaup íslenska bankans ganga eftir verður eignin sett í fjárfestingasjóðinn Kaupthing Capital Partners II:

Spænska veitingahúsarekstrarfélagið Grupo Zena er þriðja fyrirtækið sem hefur áhuga á að kaupa La Tasca.