Kaupþing mun gjaldfæra 85 milljónir evra, um 8 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi vegna svokallaðra sérvarinna skuldabréfa (e. structured credit). Bankinn tilkynnti í morgun að hann ætlaði að minnka stöður sínar í slíkum skuldabréfum.

Lokar 1,3 milljarða evru lausafjárlínu

Í tilkynningu Kaupþings segir að bankinn hafi skrifað undir samkomulag til að minnka stöðu sína í eignatryggðum skuldabréfum (e. ABS) úr 1,6 milljörðum evra í 450 milljónir evra. Gert sé ráð fyrir að frágangi verði að fullu lokið um miðjan desember. Þá segir að bankinn áformi að loka 1,3 milljarða evru lausafjárlínu sem bankinn hafi veitt og muni eftir það ekki verða með slíkar skuldbindingar í gegnum lánalínur í tengslum við stöður sínar í sérvörðum skuldabréfum. Bankinn lýsir því enn fremur yfir að hann sé ekki með neinar beinar stöður í bandarískum undirmálslánum (e. sub-prime) eða skuldavafningum (e. CDOs) sem innihalda slík lán. Jafnframt hafi Kaupþing minnkað óbeina stöðu sína í undirmálslánum í 136 milljónir bandaríkjadala sem veitt var J.C. Flowers & Co.

Trygg fjármögnun í 420 daga

Kaupþing upplýsti einnig í morgun um fjármögnun sína og lausafjárstöðu og þar kemur fram að bankinn hefur öruggt lausafé til að standa við allar skuldbindingar í meira en 420 daga frá 15. þ.m. Langtímaskuldbindingar móðurfélags Kaupþings, sem eru á gjalddaga 2008, nema 1,7 milljörðum evra og fyrir samstæðuna í heild er talan 3,7 milljarðar evra.