Kaupþing hefur ekki enn greitt japönsku samúræja bréfin (sem líkja má við íslensk jöklabréf) sem voru á gjalddaga síðastliðinn mánudag.

Kaupþing hefur þó frest fram á mánudag til að greiða fyrir bréfin samkvæmt Dow Jones fréttaveitunni.

Kaupþing þarf að reiða fram 50 milljarða japanskra jena fyrir bréfin en rétt er að taka fram að japanska jenið kostar nú 1,2 krónur en kostaði fyrir nokkrum mánuðum 0,5 krónur.

Að sögn Dow Jones eru fjárfestar í Japan nokkuð órólegir yfir seinagangi Kaupþings og óttast það að ekkert verði greitt af bréfunum. Þannig verður Kaupþing fyrsti evrópski bankinn til að standa ekki við skuldbindingar sínar en að sögn Dow Jones fréttaveitunnar kann það að hafa þær afleiðingar að aðrir bankar fari sömu leið.