Kaupþing banki og franski bankinn Societe Generale hafa hafið sölu á 393 milljón evra (38 milljarðar króna) lánsfjármögnun vegna kaupa FL Group á hollenska drykkjarframleiðandanum Refresco, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

FL Group og Vífilfell samþykktu að kaupa Refresco fyrir 461 milljón evra (44,6 milljarðar króna) í apríl. Fortis Bank og ING Bank hafa einnig umsjón með sölu lánsins á alþjóðegum sambankalánamarkaði, segja heimildarmenn blaðsins.

Lánakjörin eru töluvert betri en almennt gerist við fjármögnun skuldsettra kaupa, segja sérfræðingar á sambankalánamarkaði, og eru á bilinu 212,5-312,5 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu. Lánapakkinn samanstendur einnig af millilagi (e. mezzanine), en ber 9,5% vexti.

Bankarnir munu kynna fyrirtækið fyrir hugsanlegum fjárfestum á fimmtudaginn í næstu viku í Hollandi.