Greiningardeild Kaupþings banka hefur gert nýtt verðmat á Bakkavör Group sem gefur verðmatsgengið 44,4 krónur á hlut.

Er það til hækkunar á síðasta mati þeirra á félaginu frá því í mars síðastliðnum sem gaf verðmatsgengið 36,4 krónur á hlut. Við útgáfu verðmatsins, þann 5. desember síðastliðinn, var markaðsgengi hlutabréfa Bakkavarar 50,0 krónur á hlut.

Mælir greiningardeild bankans því með að fjárfestar minnki við hlut sinn í félaginu. Verðmatið miðast við gengi breska pundsins upp á 108 krónur.

Helstu jákvæðu þættir verðmatsins á Bakkavör er að sameiningin við Geest hefur gengið vel og hraðar en greiningardeildin áætluði. Er því ekki óvarlegt að ætla að þeim takist að ná EBITDA framlegð mun fyrr upp í þau 12% til 14% sem félagið hefur gefið út sem markmið sitt til næstu 4 til 6 ára. Einnig mun innkoma Hitchen hafa jákvæð áhrif á Bakkavör.

Það sem hefur einna mest neikvæð áhrif á verðmatið að þessu sinni er sterkt gengi íslensku krónunnar, en sú einkennilega staða kemur upp að þar sem árangur í rekstri er ekki mældur í sömu einingu og verð hlutabréfanna skilar árangur í rekstrinum sér ekki að fullu í gengishækkun hlutabréfanna.

Þess má þó geta að síðan verðmatið var unnið hefur gengi krónunnar gefið eilítið eftir og samkvæmt lokagengi pundsins, upp á um 113 krónur í gær, gefur næmnitafla verðmatsgengið 46,5 krónur á hlut.

Byggt á Hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings banka.