Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefur verið skipt í tvennt og meginstarfsemin heldur áfram undir nafninu Banque Havilland S.A. frá og með morgundeginum. Nýir eigendur eru Rowland fjölskyldan, sem búsett er í Bretlandi og á meðal annars eignastýringarfélagið Blackfish Group.

Með þessum breytingum er greiðslustöðvun bankans lokið, að því er segir á nýjum vef hans. Stjórnarformaður bankans er Martyn Konig og framkvæmdastjóri er Magnús Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg. Í fréttatilkynningu segir að bankinn muni einbeita sér að efnuðum einstaklingum í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu.

Sá hluti Kaupthing Bank Luxembourg sem ekki fór inn í Banque Havilland varð að Pillar Securitisation S.á.r.l. Meðal þess sem fer inn í Pillar Securitisation eru öll lán sem tengjast einkabankaþjónustu og fyrirtækjaþjónustu, auk vaxta og skuldbindinga sem þeim tengjast.