NASDAQ OMX Group, Inc. tilkynnti í gær um vísitölu, NASDAQ OMX 100 IndexSM (NASDAQ: QOMX) sem er nýtt alþjóðlegt fjárfestingarviðmið fyrir NASDAQ OMX Group. Kaupþing er eitt íslenskra félaga í nýju vísitölunni. NASDAQ OMX 100 er markaðsvegin vísitala sem samanstendur af 100 stærstu félögum á skrá í sameinuðum kauphöllum NASDAQ OMX Group,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá NASDAQ OMX á Íslandi

„Það er fagnaðarefni að sjá Kaupþing banka meðal 100 stærstu í nýrri sameiginlegri vísitölu NASDAQ OMX. Meðal þekktra fyrirtækja í vísitölunni má nefna Microsoft, Apple, Nokia og Google. Þessi vísitala er fyrsta sameiginlega afurðin sem kynnt er í kjölfar samruna umræddra kauphalla. Reikna má með að fjárfestar um allan heim muni fylgjast vel með þessari vísitölu,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Nordic Exchange á Íslandi.

„Það er mjög ánægjulegt að vera hluti þessarar nýju vísitölu NASDAQ OMX. Þetta eykur sýnileika okkar um allan heim, ekki síst í Bandaríkjunum og er okkur áskorun til öflugrar starfsemi á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.

„NASDAQ OMX 100 samanstendur af 100 stærstu félögum á skrá í NASDAQ OMX kauphöllunum í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og á Íslandi.

Vísitalan tekur mið af ýmsum atvinnugeirum og vegur tæknigeirinn þyngst en á eftir honum koma heilbrigðisgeirinn, iðnaðargeirinn, neysluvörugeirinn og fjármálageirinn. 3982 félög eru skráð á NASDAQ OMX.

NASDAQ OMX 100 Index er reiknuð út í rauntíma í öllum sameinuðu kauphöllunum og er birt í dollurum og evrum. Útreikningar vísitölunnar hófust í gær með gildinu 1500.00,“ segir í tilkynningunni en þar kemur fram að NASDAQ OMX Group, Inc. er stærsta kauphallarfyrirtæki í heimi. Það veitir viðskipta- og kauphallarþjónustu sem og almenna fyrirtækjaþjónustu í sex heimsálfum með yfir 3.900 félög í viðskiptum.