Kaupþing vinnur að skuldabréfaútgáfu þessa dagana sem vænst er að ljúki fyrir helgi. Útgáfan tengist að hluta til kaupum bankans á hollenska bankanum NIBC en ætlunin er að styrkja eiginfjárgrunn bankans með útgáfunni. Þegar kaupin lágu fyrir var ætlun bankans að ráðast í slíka útgáfu. "Við erum að gefa út víkjandi lán, svokallaðan eiginfjárþátt A . Hér er því ekki um að ræða fjármögnun bankans heldur erum við að styrkja eiginfjárgrunn bankans," sagði Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fjárstýringar Kaupþings í samtali við Viðskiptablaðið. Endanlegt útboðsgengi ákvarðast af áhuga fagfjárfesta á svokölluðum bóksöfnunartíma (e. book-building). Að sögn Guðna er fjármagnið að mestu leyti sótt til Asíu og sagði hann aðspurður að markaðsaðstæður virtust ágætar. Endanlegt vaxtastig bréfanna á eftir að koma í ljós en það gæti verið öðru hvoru megin við 9%. Sömuleiðis mun endanleg stærð útgáfunnar ráðast af áhuga fjárfesta. Útgáfan miðast fyrst og fremst að þeim sem starfa á einkabankamarkaði og sækja þjónustu þangað. Stofnanafjárfestar sækja síður í bréfin, enda hefur verið erfiðara að sækja fjármagn inn á þann markað í kjölfar lausafjárvandræðanna sem hafa dunið yfir markaðinn að undanförnu. Vextir í Bandaríkjunum hafa verið að hækka og má því gera ráð fyrir að bankinn þurfi að þola nokkurt vaxtaálag á útgáfuna. Citi, Credit Suisse, Deutsche Bank og Merrill Lynch hafa tekið að sér að sjá um útboðið. Kaupþing hefur lánshæfiseinkunina Aa3 by Moodys Investors Service Inc. og A hjá Fitch Ratings.