Fjárfestingararmur Kauþings banka er einn af mörgum aðilum sem óskað hafa eftir upplýsingum um ferðaveitingaeiningu breska veitingaþjónustufyrirtækisins Compass Group, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Sagt var frá þessu í frétt í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.

Compass Group, sem er hluti af FTSE-100 hlutabréfavísitölunni í Bretlandi, hefur ráðið fjárfestingabankann Citigroup til að finna kaupanda að Select Service Partner (SSP), sem er ferðaeining félagsins. SSP rekur veitingaþjónustu og kaffibari á lestar- og bensínstöðvum víðsvegar um Bretland.

Talið er að félagið sé til sölu fyrir um einn milljarð punda, sem samsvarar 108 milljörðum íslenskra króna. Viðælendur Viðskiptablaðsins reikna þó með að SSP sé of stór biti fyrir Kaupþing og að fjárfestingararmur bankans muni leita eftir samstarfi við aðra aðila. Bankinn hefur unnið reglulega með auðkýfingnum Robert Tchenguiz, meðal annars vegna kaupa hans á bresku pöbbakeðjunni Laurel Pubs og svo Somerfield í samvinnu við aðra fjárfesta. Talið er að hlutur Kauþings banka í Somerfield nemi um 20% en verslunarkeðjan var seld á rúmlega milljarð punda.

Heimildarmenn Viðskiptablaðins innan Kaupþings banka staðfestu að bankinn væri að skoða SSP en bentu þó á að málið væri á byrjunarstigi og það væri alls ekki öruggt að bankinn geri kauptilboð í félagið. Citigroup segir að um 40 aðilar hafi sýnt áhuga á því að fá upplýsingar um SSP og búist er við að samkeppnin um að kaupa félagið verði hörð. Önnur fyrirtæki sem nefnd hafa verið til sögunnar eru franska veitingaþjónustufyrirtækið Elior, ítalska veitingahúsakeðja Autogrill ásamt fjölda fjárfestingasjóða, svo sem Permira. Permira er eigandi bresku veitingahúskeðjunnar Little Chef.