Kaupþing banki hefur undirritað samning um kaup á 20% hlut í indverska fjármálafyrirtækinu FiNoble Advisors Private Ltd (FiNoble) að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Auk þess hefur bankinn rétt til að kaupa eftirstandandi 80% hlut í félaginu eftir 5 ár. Með þessari fjárfestingu hefur Kaupþing tryggt sér aðgang að hinum ört vaxtandi indverska fjármálamarkaði.

Skrifstofur FiNoble, sem stofnað var árið 2004, eru í Nýju Delhi á Indlandi. Hjá félaginu starfa 25 manns og leggur það megináherslu á hefðbundna ráðgjöf í tenglum við yfirtökur og samruna fyrirtækja. Félagið sérhæfir sig í ráðgjöf til indverskra fyrirtækja í tengslum við yfirtökur þeirra á evrópskum og bandarískum fyrirtækjum sem og ráðgjöf til erlendra fyrirtækja við yfirtökur á Indlandi.

Kaupþing greiðir inn fé í félagið með kaupum á hlut í eignarhaldsfélagi FiNoble sem mun verða hlutdeildarfélag í reikningum Kaupþings. Kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu bankans á árinu.