Háskóli Íslands og Kaupþing gerðu með sér samning hinn 28. desember síðastliðinn um ótímabundna kostun á stöðu prófessors í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Í samningnum felst meðal annars að heiti Kaupþings verður tengt við ákveðna stöðu prófessors eða dósents í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Slíkt fyrirkomulag er mjög algengt hjá háskólum í Bandaríkjunum og víðar, en er nýmæli á Íslandi. Samningurinn markar einnig nokkur tímamót í stuðningi atvinnulífs við Háskóla Íslands því þótt fyrirtæki hafi áður kostað stöður við háskólann hefur slíkur stuðningur ávallt verið tímabundinn. Stuðningur af þessu tagi er mjög mikilvægur fyrir Háskóla Íslands og gefur svigrúm til að efla kennslu og rannsóknir í fjármálum og tengdum greinum.

Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur ákveðið að dr. Friðrik Már Baldursson, gegni stöðu prófessors með fulltingi Kaupþings. Friðrik Már hefur starfað sem prófessor við viðskipta- og hagfræðideild frá 2003. Hann starfaði áður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Þjóðhagsstofnun og kenndi við Columbia háskólann í New York.

Rannsóknir Friðriks Más beinast m.a. að fjármálahagfræði, atvinnuvegahagfræði og hagfræði orkumarkaða. Hann hefur birt fjölda rannsóknarritgerða í innlendum og erlendum ritrýndum fagtímaritum. Friðrik Már hefur m.a. kennt námskeið í fjármálastærðfræði í meistaranámi í fjármálahagfræði sem fór af stað sl. haust í viðskipta- og hagfræðideild. Hann hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir