Kaupþing hefur kært norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv til siðanefndar norska blaðamannafélagsins.

Þann 10. maí síðastliðinn birti blaðið fyrirsögn á forsíðu sinni þar sem sagði að viðskiptavinir væru að flýja Kaupþing.

Fyrirsögnin var í engu samræmi við efni fréttarinnar og hefur þessi ranga frétt skaðað orðstír Kaupþings í Noregi, að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Kaupþings.

„Þessi fyrirsögn var til þess fallin að skaða bankann, þetta rýrir traust á okkur og það er með öllu óásættanlegt“ segir Jónas.

Það sem af er árinu hafi gengið vel hjá Kaupþingi að safna innlánum í Noregi. Hins vegar hafi blaðið aðeins valið úr neikvætt tveggja vikna tímabil við gerð fyrirsagnarinnar í stað þess að lita til ársins í heild.