Stjórn Kaupþings banka hf. hefur ákveðið að boða til hluthafafundar þann 16. október næstkomandi, þar mun stjórnin leggja til að Kaupþing banki greiði hluthöfum sínum í arð 830.691.316 hluti í Exista hf., segir í tilkynningu.

Hluthafar munu fá 1,25 hluti i Exista fyrir hvern hlut í Kaupþingi banka (1,25:1). Ofangreindur fjöldi hluta svarar til 7,7% heildarhlutafjár Exista hf.

Hluthafafundardagurinn, 16. október 2006, er arðleysisdagur (e. ex-date), það er sá dagur sem viðskipti hefjast án réttinda til arðs. Arðsréttindadagur (record date) á Íslandi er að morgni 16. október og í Svíþjóð þann 18. október. Arðgreiðslan mun fara fram þann 26. október 2006.

Hluthafafundurinn fer fram á Nordica hóteli, Suðurlandsbraut 2, Reykjavík og hefst kl. 18.00. Fundarstörf munu fara fram á ensku. Atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent við innganginn við upphaf fundarins.