Kaupþing banki og austurríski bankinn RZB hafa lokið sölu á 18 mánaða sambankaláni að virði 21 milljón evra (1,98 milljarðar króna) fyrir lettneska bankann Lateko Banka, sem er að mestu leyti í eigu Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Straumborg, félag í eigu Jóns Helga, keypti 51% hlut í bankanum í janúar á þessu ári en félög tengd honum hafa verið með starfsemi í Lettlandi frá árinu 1993.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að Landsbanki Íslands lánaði Lateko Banka 23 milljónir evra stuttu eftir að kaup Straumborgar voru tilkynnt og talið er að nýja lánið endurfjármagni Landsbankalánið. Vaxtakjörin hafa lækkað um fimm punkta, í 75 punkta yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, úr 80 punktum, segja heimildarmenn blaðsins á sambankalánamarkaði.

Kjör Lateko Banka verða að teljast hagstæð, segja sérfræðingar, sérstaklega í ljósi þess að vaxtastig á fjármálamörkuðum fer hækkandi en fjármögnunarkostnaður íslensku bankanna hefur aukist verulega í kjölfar umróts á fjámálamörkuðum og neikvæðra greininga erlendra aðila. Glitnir banki tilkynnti í gær um sölu skuldabréfa að virði 500 milljóna dollara til bandarískra fjárfesta og eru kjörin 123 punktar yfir LIBOR-vexti í Bandaríkjunum. Hins vegar eru bréfin ekki fyrsta flokks (tier 1) og gefa því ekki rétta mynd af vaxtakjörum bankans.

Kaupþing banki, sem leiðir sambankalánið ásamt RZB, sótti nýlega 500 milljónir evra á sambankalánamarkað á vaxtakjörunum 17,5 punktar yfir EURIBOR. Ekki er ólíklegt að Glitnir gæti fjármagnað sig á sambankalánamarkaði á hagstæðari kjörum en Kaupþing banki, en álag á skuldatryggingar Glitns (e. credit default swaps) hafa verið um 20 punktum undir álagningu á skuldatryggingar Kaupþings. Lateko Banka er millistór banki í Lettlandi og námu heildareignir hans 35 milljörðum íslenskra króna.