Kaupþing hefur leitað til alþjóðlegu lögmannastofuna Grundberg Mocatta Rakison LLP sem staðsett er í Bretlandi í þeim tilgangi að kanna lögmæti þeirra aðgerða sem fólu í sér yfirtöku á eignum  Kaupthing Singer & Friedlander til breskra yfirvalda í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grundberg Mocatta en þar er einnig tekið fram að lögmannastofan muni veita Kaupþing ráðgjöf um mögulega skaðabótakröfu á hendur bresku ríkisstjórninni.

Samkvæmt tilkynningunni hefur félagið skipað þriggja manna vinnuhóp sem í sitja John Jarvis, sem veitir hópnum forsæti auk þeirra Michael Tackley og Richard Beresford.

Í tilkynningunni kemur fram að hópurinn hafi fundað með forsvarsmönnum Kaupþings í Reykjavík í gær.

Niðurstöður fundarins voru, samkvæmt tilkynningunni, eftirfarandi:

1. Kaupþing getur mögulega gert kröfu á hendur bresku ríkisstjórninni fyrir að hafa tekið eignir bankans í Bretlandi yfir með ólöglegum hætti. Í tilkynningu lögmannastofunnar kemur fram að aðgerðin gegn bankanum hafi þess utan ekki fallið undir lagaramma sem heyrir undir bankalög í Bretlandi (e. Banking (Special Provisions) Act 2008).

2. Þá er möguleiki fyrir skaðabótakröfu á hendur breska ríkinu vegna brota opinberra starfsmanna. Sú krafa gæti að sögn lögmannastofunnar hlaupið á milljörðum punda.