Hagnaður Kaupþings [ KAUP ] eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 14,4 milljörðum króna og jókst um 3,0% frá þriðja ársfjórðungi 2006 – hagnaður dróst hins vegar saman um 59,3% milli tímabila ef tekinn er með 21,4 milljarða króna einsskiptis hagnaður eftir skatta vegna Exista á þriðja ársfjórðungi 2006. Líklega má bankinn vel við una þó afkoman sé lítillega undir meðalspá greiningardeildanna sem var upp á 15,8 milljarða.

Greiningardeild Landsbankans spáði 15 milljarða króna hagnaði en Greining Glitnis spáði 16,6 milljarða króna hagnaði.

Eins og kom fram í tilkynningu forstjóra þá ríkir nokkur ánægja með þróun hreina þóknanatekna á fyrstu níu mánuðum ársins námu samtals 40.899 milljónum kr. og jukust um 60,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Hreinar þóknanatekjur á þriðja ársfjórðungi 2007 námu samtals 13.374
milljónum kr. og jukust um 75,2% miðað við þriðja ársfjórðung 2006. Mikil fjölgun starfsmanna sem hafa áhrif á þóknanamyndun bankans og aukin umsvif hjá bankanum á öllum markaðssvæðum skýrir þessa aukningu.

Hreinar vaxtatekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 56.374 milljónum kr. og jukust um 50,1% miðað viðsama tímabil 2006. Hreinar vaxtatekjur á þriðja ársfjórðungi 2007 námu 20.259 m.kr. og jukust um 59,7% miðað við sama tímabil 2006. Þessi aukning skýrist einkum af vaxandi útlánasafni, auknu lausafé, og af hærri vaxtamun hjá bankanum sem myndast meðal annars með auknum innlánum.