Kaupþing hefur gengið frá 400 milljóna Bandaríkjadala skuldabréfaútboði eða 24 milljarða króna en sagt var frá söfnun þess í Viðskiptablaðinu í dag. Útgáfan tengist að hluta til kaupum bankans á hollenska bankanum NIBC en ætlunin er að styrkja eiginfjárgrunn bankans með útgáfunni. Þegar kaupin lágu fyrir var ætlun bankans að ráðast í slíka útgáfu. Bréfin bera 275 punkta álag yfir LIBOR vexti sem jafngildir 9% vöxtum.

"Við erum að gefa út víkjandi lán, svokallaðan eiginfjárþátt A . Hér er því ekki um að ræða fjármögnun bankans heldur erum við að styrkja eiginfjárgrunn bankans," sagði Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fjárstýringar Kaupþings í samtali við Viðskiptablaðið sem birtist í dag.



Citi, Credit Suisse, Deutsche Bank og Merrill Lynch sáu um útboðið. Kaupþing hefur lánshæfiseinkunina Aa3 by Moodys Investors Service Inc. og A hjá Fitch Ratings.